Jerome Kerviel, verðbréfamiðlarinn fyrrverandi sem fór svo rækilega út fyrir heimildir í starfi sínu hjá franska bankanum Société Générale árið 2008 að bankinn tapaði 4,9 milljörðum evra, hefur áfrýjað dómi í máli sínu. Hann hlaut fimm ára dóm vegna málsins árið 2010.

Kerviel er m.a. sakaður um skjalafals og fyrir að hafa farið út fyrir þær heimildir sem hann hafði. Hann segist þvert á móti að yfirmenn sýnir hafi vitað af viðskiptum sínum. Þeir hafi verið kátir þegar viðskipti hans skiluðu hagnaði. Gleðin hafi hins vegar snúist upp í andhverfu sína þegar hann tók að tapa á þeim. Þegar mest lét var hann með 50 milljarða evra undir í geysistórum veðmálum.

Það gera átta þúsund milljarða króna á gengi dagsins.

Kerviel var fyrir tveimur árum dæmdur til að greiða til baka þá 4,9 milljarða evra, 790 milljarða króna, sem hann tapaði. Stjórnendur franska bankans hafa, að sögn BBC af málinu, hins vegar gert sér ljóst að það muni hann seint hafa burði til að geta og krafist brots af heildarfjárhæðinni.

Bankinn kom ekki vel undir málinu því auk tapsins sektuðu franska fjármálaeftirlitið hann um fjórar milljónir evra, rúmar 600 milljónir króna, fyrir að hafa ekki staðið sig í innra eftirliti.