Verðbréfaskúrkurinn Kweku Adoboli hefur sparkað verjendum sínum og vill fá nýja. Ekki liggur fyrir hver ástæðan fyrir hrókeringunum er.

Kweku Adoboli
Kweku Adoboli
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Adoboli var handtekinn í september síðastliðnum eftir að alþjóðabankinn UBS í London rak augun óvænt í tap upp á 2,2 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði um 270 milljarða króna. Tapið var rakið til afleiðuviðskipta Adoboli sem náðu langt út fyrir heimildir. Viðskiptin gengu út á að veðja á að tiltekna þróun á markaði. Þegar markaðir þróast með öðrum hætti tapar miðlarinn, í þessu tilviki Adoboli.

Það voru lögfræðingar hjá lögfræðiskrifstofunni Kingsley Napley sem tóku Adoboli í sinn faðm. Þeir eru þrautreyndir á skúrkasviðinu. Þekktasti viðskiptavinur þeirra er vafalítið Íslandsvinurinn Nick Leeson, sem Icebank fékk til að halda fyrirlestur hér haustið 2007. Leeson fjallaði í erindi sínum um forvarnir í bankarekstri og um hætturnar sem bankar í miklum vexti standa frammi fyrir svo gjaldþrotasagan endurtaki sig ekki.

Sjálfur er Nick Leeson þekktastur fyrir að hafa sett Baringsbanka, viðskiptabanka Englandsdrottningar, á hausinn eftir umfangsmikil afleiðuviðskipti sem sneru að því að veðja á gengisþróun japanska jensins árið 1995. Þetta var á sínum tíma eitt stærsta gjaldþrotið í bankaheiminum. Leeson hlaut sex ára dóm fyrir gjörðir sínar en sat inni í fjögur ásamt því að fá á sig himinháa sekt.

Vincent Tchenguiz
Vincent Tchenguiz
© vb.is (vb.is)

Á meðal annarra þekktra viðskiptavina lögfræðiskrifstofunnar er annar góðkunningi í íslenskum bankageira, fasteignamógúllinn Vincent Tchenguiz, sem efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar handtók í vor í tengslum við rannsókn á falli Kaupþings. Vincent og bróðir hans Robert Tchenguiz voru á meðal helstu vildarvina bankans.

Mál Adoboli verður tekið fyrir eftir áramótin.