Samtök Atvinnulífsins hafa sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að hækkun matvælaverðs sé í takti við skattabreytingar og verð á hrávörum. Síðastliðin áramót var virðisaukaskattur á mat- og drykkjarvörur hækkaður úr 7% í 11% og á sama tíma voru felld niður vörugjöld á sykur.

Hækkun virðisaukaskattsprósentunnar nemur 3,7% og hlutfall innheimts sykurskatts af heildarkostnaði heimila við matarinnkaup var 1,7% segir í frétt SA. Hefðu samanlögð áhrif þessara aðgerða því átt að leiða til um 2% hækkunar á matarverði hérlendis. Þó má taka fram að slíkt mat se háð mikilli óvissu, enda hafi margir aðrir þættir en skattheimta áhrif á matarverð.

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands yfir breytingar á matvælarverði á árinu hefur verðið hækkað lítillega umfram væntingar SA, en munurinn er lítill og innan skekkjumarka.

„Ef verðbreyting allra vöruflokka yrðu nákvæmlega í línu við áætlaðar prósentubreytingar væri það til marks um að við byggjum í fastmótuðum nánast vélrænum heimi. Sem betur fer er veröldin bæði flóknari og áhugaverðari en svo,“ segir í frétt SA.

Þættirnir sem hafi áhrif á verðþróun einstakra vara séu margir og sveiflist innkaupaverð þeirra með heimsmarkaðsverði. Aukin eftirspurn geti ýtt undir verðhækkanir og verð endurspegli upplýsingar um allt frá smekk neytenda til uppskeru í fjarlægjum löndum.

„Til marks um sveiflur í verði þeirra vara sem í boði eru í íslenskum verslunum hefur heimsmarkaðsverð á fiski og ávöxtum hækkað mikið undanfarið. Áhrif þessara tveggja liða til hækkunar matvælaverðs á tímabilinu, leiðrétt fyrir áhrifum skattbreytinganna, nemur 0,8% og getur hækkun innkaupsverðs því skýrt að miklu leyti þau 0,7% sem munar á verðhækkununum og mati SA á áhrifum skattbreytinganna,“ segir jafnframt í frétt SA.

„Í ljósi mikilla sveifla í innkaupsverði verslananna sjálfra á aðföngum sínum, auk breytinga á öðrum kostnaði verslanna t.a.m. launakostnaðar, er erfitt að meta út frá útsöluverði einu saman hvort verslanir hafi aukið álagningu. Hagar hf. er eina skráða félagið á Íslandi sem stundar smásölu á matvælum og er félagið með um 50% markaðshlutdeild. Skv. árshlutareikningi Haga fyrir fyrsta ársfjórðung kemur fram að framlegð rekstrar hefur minnkað lítillega frá síðasta ári eða um ríflega 1% milli ára. Erfitt er að sætta þá niðurstöðu við fullyrðingar um að álagning hafi aukist undanfarin misseri.“