Samtímis sem íslensku olíufélögin hækkuðu útsöluverð á bensíni um 3 krónur/lítra í fyrradag lækkaði dægurverð á bensíni á markaði í Rotterdam um 12 dali/tonn. Er þar um að ræða bensín til flutnings yfir hafið (CIF) og jafngildir þessi lækkun rúmri krónu á hvern lítra.

Olíufélögin fóru því algjörlega gegn þróun á markaði og hefðu þau því, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, með réttu átt að lækka verð um þessa krónu í gær, auk þeirra þriggja króna sem verð var hækkað um í fyrradag. Framlegð olíufélaganna af hverjum seldum lítra hefur hækkað mikið að undanförnu og hlýtur að vera að nálgast sögulegt hámark, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, en þess ber að geta að útsöluverð á bensíni hérlendis hefur aldrei verið hærra en einmitt nú.