Verðbólga á evrusvæðinu er orðin neikvæð samkvæmt opinberum tölum, en verðlag mældist 0,2 prósentum lægra í desember en í sama mánuði ári fyrr. BBC News greinir frá þessu.

Helstu ástæður lækkunarinnar eru taldar lægra orkuverð og hríðlækkandi heimsmarkaðsverð á olíu. Sé orka hins vegar tekin út fyrir sviga mældist verðbólga á svæðinu 0,6% í desember.

Verð á mat, áfengi og tóbaki hélst óbreytt frá fyrra ári eftir að hafa hækkað um 0,5% í nóvember. Þá hækkaði verð á þjónustu um 1,2% í desember samanborið við sama mánuð ári fyrr.

Þetta er í fyrsta sinn sem verðhjöðnun verður á evrusvæðinu frá árinu 2009, en búist er við aðgerðum frá Seðlabanka Evrópu til þess að örva efnahagslífið.