Verðhjöðnun var á evrusvæðinu í febrúar, en vísitala neysluverðs lækkaði um 0,2% í mánuðinum.

Þetta er í samræmi við spár greiningaraðila en verðbólga í janúar mældist 0,3%. Helstu áhrifaþættir fyrir lækkun vísitölunnar eru miklar verðlækkanir á olíu og gasi.

Seðlabanki Evrópu lækkaði verðbólguspá sína fyrir árið úr 1% í 0,1%, en á sama tíma lækkaði bankinn stýrivexti og jók við örvunaraðgerðir sínar til að styðja við vöxt. Bankastjóri seðlabankans, Mario Draghi, sagði þá að lág verðbólga og/eða verðhjöðnun væri óumflýjanleg og mikilvægt væri að bankinn myndi grípa til aðgerða.