Verðhjöðnun mældist á Grikklandi í síðasta mánuði, samkvæmt gögnum Elstat, hagstofu Grikklands. Breska dagblaðið Telegraph segir að fastlega hafi verið búist við þessu í kjölfar samdráttar þar í landi síðastliðin fimm ár. Landsframleiðsla á Grikklandi hefur látið á sjá eftir fjárkreppuna og er hún nú 16% minni en árið 2008.

Viðmælendur blaðsins segja það eina óvænta í tölunum að verðhjöðnun hafi ekki mælst fyrr. Blaðið segir að þótt útflutningsfyrirtæki gleðjist yfir þróun mála þá geti staðan leitt til þess að stjórnvöld þurfi að endurskipuleggja skuldir hins opinbera á nýjan leik og lánardrottnar landsins að afskrifa meira af kröfum sínum. Fari allt á versta veg megi búast við því að á endanum muni Grikkjum verða ýtt út úr evrusamstarfinu.