Almennt verðlag í Frakklandi var 0,4% lægra í janúar en það var á sama tíma í fyrra, að því er segir í frétt BBC. Mestu máli skiptir varðandi þessa þróun að orkuverð hefur fallið um 7,1% á tímabilinu, enda hefur olíuverð hríðlækkað frá síðasta sumri. Þetta er í fyrsta skipti í fimm ár sem verðhjöðnun mælist í franska hagkerfinu.

Í janúar kynnti evrópski seðlabankinn aðgerðir sem eiga að stemma stigu við verðhjöðnun, sem mældist 0,6% á evrusvæðinu í janúar. Verðbólgumarkmið seðlabankans er 2%.

Þótt lækkandi orkuverð skýri verðhjöðnunina nú er sá ótti fyrir hendi að slakur hagvöxtur muni leiða til viðvarandi verðhjöðnunar á svæðinu.