Capacent spáir tæplega 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs í ágústmánuði. Því muni 12 mánaða verðbólga lækka úr 1,1% í 0,9% ef spá Capacent gengur eftir. Mun verðbólgan því brjóta neðri vikmörk verðbólgumarkmiða Seðlabankans.

Ef horft er fram hjá verðhækkun húsnæðis, hafði verðlag í landinu lækkað um 0,6% í síðasta mánuði. Mun vísitala neysluverðs án húsnæðis enn lækka ef spáin gengur eftir. Verður því 1% verðhjöðnun í ágúst ef litið er fram hjá hækkun húsnæðisverðs.

Ekki varð af verðbólguskoti

Segir Capacent að verðbólguskotið sem Seðlabankinn hafi búist við og því hækkað stýrivexti síðasta sumar, hafi ekki komið og verðbólgan því farið stiglækkandi á seinni hluta síðasta árs. Sveiflaðist hún þá í kringum 2%, en á fyrri hluta þessa árs í kringum 1,5% en nú virðist hún vera komin í kringum 1%.

Gerir Capacent ráð fyrir að fasteignaliðurinn leggi til 0,15% til hækkunar á verðbólgunni, og gera þeir ráð fyrir að hækkun fasteignaverðs verði í meira lagi í ágúst því á haustin séu hækkanir oft hvað mestar á því.

Útsölulok hafi áhrif til hækkunar

Gerir Capacent ráð fyrir að hærra verð á fatnaði vegna útsöluloka nú með haustinu hafi 0,22% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs.

Jafnframt komi hækkun vegna útsöluloka á húsgögnum, húsbúnaði og raftækjum sem komi til áhrifa í ágúst um 0,03% áhrif til hækkunar vísitölunnar fyrir mánuðinn, en mest áhrif þess komi til í september.

Verðlag fikrar sig niður

Ef árstíðabundnar sveiflur vegna útsala og hækkun fasteigna er skilin frá, er verðlag að fikra sig niður og ræður þar mestu gengisstyrking krónunnar og lækkandi olíuverð. Gerir Capacent ráð fyrir 2,5% lækkun á eldsneytisverði og um 5% lækkun á flugfargjöldum en þetta tvennt hafi þá 0,16% áhrif á vísitöluna.

Jafnframt komi styrking krónunnar til með að lækka verð á Bifreiðum og varahlutum, og gerir Capacent ráð fyrir að þeir liðir hafi 0,05% áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs.

Uppskera á íslensku grænmeti hækkar verðbólgu

Athyglisvert er að þeir gera ráð fyrir að matvælaverð hækki lítillega þegar íslenskt grænmeti komi í hillur matvöruverslana með haustinu, og hafi það um 0,05% áhrif til hækkunar. Jafnframt muni verðskrá skóla og íþróttafélaga hækka með haustinu sem einnig hafi 0,05% áhrif til hækkunar í ágúst.