Í nýrri greiningu Arion banka segir að verðbólgutölur sem Hagstofa Íslands birti í morgun hafi komið greiningaraðilum í opna skjöldu. Deildin spáði 0,1% hækkun vísitölu neysluverðs en líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá , átti sér stað verðhjöðnun, eða 0,16% lækkun vísitölunnar. Í greiningunni sem er titluð Furðulegt háttalag verðlags um vetur segir að samsetning verðbólgunnar hafi dottið í sama gamla farið aftur þar sem húsnæðisliðurinn drífur verðbólguna áfram en aðrir liðir hafi vegið til lækkunar.

Greiningardeildin telur þó ekki ástæðu til að ætla að verðbólga undir væntingum grieningaraðila vegi þyngra í huga peningastefnunefndar heldur en nýtt fjárlagafrumvarp við vaxtaákvörðun í desember.

Þá segir ennfremur að vart hafi verið þverfótað fyrir tilboðum í nóvember og að miðnæturopnanir, svartur föstudagur og Cyber Monday hafi dunið á landsmönnum. Spurning sé því hvort slík tilboð í bland við samkeppni verslana um jólaösina hafi litað mælingar Hagstofunnar að þessu sinni.

Hér má lesa greininguna í heild sinni.