Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,15% nú í ágúst frá fyrra mánuði. Ársverðbólga fer því áfram lækkandi og fer nú úr 4,6% í 4,1%. Greiningaraðilar bjuggust heldur við hækkunum og spáðu jafnvel 0,3-0,5% hækkun. Þróunin er því heldur betri, en þetta er jafnframt undir væntingum markaðsaðila ef marka má nýja væntingakönnun Seðlabankans. Það sama gildir um verðbólguspána sem Seðlabankinn birti í síðustu viku.

Seðlabankinn hefur frá upphafi árs gert ársfjórðungslegar kannanir á væntingum markaðsaðila til ýmissa hagstærða. Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var nú um miðjan ágúst búast markaðsaðilar við 4,6% verðbólgu á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Væntingarnar fara svo vaxandi þar sem búist er við 4,7% verðbólgu á næsta ársfjórðungi og 4,9% verðbólgu á fyrsta fjórðungi næsta árs. Þetta eru töluvert jákvæðari væntingar en á síðasta ársfjórðungi þegar markaðsaðilar bjuggust við 6,0% verðbólgu á þessum fjórðungi og 5,8% á þeim næsta. Seðlabankinn hefur einnig fært niður sínar spár en samkvæmt Peningamálum sem komu út í síðustu viku býst bankinn við að verðbólga fari niður fyrir 4% snemma á næsta ári.

Verðbólguvæntingar markaðsaðila og verðbólgan
Verðbólguvæntingar markaðsaðila og verðbólgan

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.