Volkswagen hefur lækkað um 20,9% í kauphöllinni í Frankfurt það sem af er degi. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá gæti fyrirtækið þurft að greiða allt að 2.300 milljarða króna sekt til umhverfiseftirlits Bandaríkjanna vegna hugbúnaðar sem hannaður var til að blekkja yfirvöld.

Í stuttu máli var hugbúnaðurinn hannaður til þess að draga verulega úr mengun þegar yfirvöld skoðuðu hversu mikið bíllinn mengaði. Í venjulegum akstri menguðu dísilbílar á borð við Jetta og Passat hins vegar 10 til 40 sinnum meira en leyfilegt var. Ekki er útilokað að sakamálarannsókn verði hafin vegna málsins, að því er kemur fram í frétt Bloomberg .

Hlutabréf Volkswagen kosta þegar þetta er skrifað um 128,1 evrur. Markaðsvirði Volkswagen hefur minnkað um 12 milljarða dollara í dag, eða jafnvirði um 1.700 milljarða króna.