Olíuverð heldur áfram að lækka. Í dag féll verð á tunnu af Brent-hráolíu um 5,5% og kostar því 27,19 Bandaríkjadali. Verð á West Texas Intermediate féll um meira en 7% og kostar þá 26,3 Bandaríkjadali. WTI-olía hefur þá fallið um rétt rúmlega 29% það sem af er ári.

Venesúela boðaði neyðarfund OPEC-ríkja í dag í þeim tilgangi að reyna að hækka olíuverð á einhvern hátt, en það gerði aðeins illt verra og flýtti fyrir verðfallinu.

„Bjarnarmarkaðurinn hefur íþyngt olíuverði á árinu, en mikil viðskipti á þjóðhagsskala með olíu hafa einnig haft lækkandi áhrif,” er haft eftir Ed Morse, sem er formaður verslunarvörurannsókna CitiGroup.

Olíuverð hefur ekki verið jafn lágt og það er nú í heil 13 ár, en síðast náði það slíkum lægðum árið 2003. Fjármálamarkaðir síga niður í takt við olíuverðið en eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag hefur FTSE-100 vísitalan verið metin til bjarnarmarkaðar, meðan TOPIX vísitala hlutabréfa á Tokyo-verðbréfamarkaðnum hefur einnig náð stöðu bjarnarmarkaðar.