Hlutabréf í Royal Bank of Scotland lækkuðu um 10% strax við opnun markaða í morgun, en hafa þó jafnað sig lítillega það sem af er degi. Þegar þetta er skrifað þá hafa bréfin lækkað um 7,17% frá upphafi viðskipta.

Lækkunin er rakin til ársuppgjörs bankans sem hann birti eftir lokun markaða í gær. Bankinn skilaði tapi áttunda árið í röð og lagði vonir um arðgreiðslur á ís. Tapið á árinu nam 2 milljörðum punda, eða um 360 milljörðum króna.

Bankinn er 73% í eigu ríkisins en í tilkynningu frá bankanum kom fram að markmið bankans um að hefja arðgreiðslur á árinu 2017 myndi ekki nást. Þetta er að miklu leyti rakið til seinkunar á uppgjöri við stjórnvöld í Bandaríkjunum vegna undirmálslána í kjölfar fjármálakreppunar 2008.

Tekjur bankans drógust saman um 14% og voru 13 milljarðar punda. Rekstrarhagnaður lækkaði úr 6 milljörðum punda í 4,4, milljarða punda. Kostnaður bankans við endurskipulagningu og greiðslu sekta í dómsmálum nam 6,5 milljörðum punda á árinu.