Nikkei 225 hlutabréfavísitalan í Japan féll í viðskiptum dagsins um 5,4%. Auk þess lækkaði ávöxtunarkrafan á japönskum ríkisskuldabréfum og hún er nú neikvæð í fyrsta skipti, eða -0,025% á 10 ára skuldabréfum. Þessi tvö atriði koma mjög illa út fyrir þann hæga efnahagsbata sem landið hafði náð undir forystu forsætisráðherrans Shinzo Abe.

Japanski hlutabréfamarkaðurinn hefur ekki lækkað jafn mikið á einum degi síðan í júní 2013. Hlutabréf í fjármálafyrirtækjum fóru verst út úr lækkunum dagsins. Motsubishi UFJ Financial Group lækkaði um 8,7% og Nomura Holdins Inc. lækkaði um 9,1%

Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa í japan hefur lækkað undanfarið eftir að Seðlabanki Japans lækkaði stýrivexti í síðsta mánuði. Stýrivextir í landinu eru nú neikvæðir og sérfræðingar telja að bankinn muni líklega lækka þá enn frekar.

Japan mun birta hagvaxtatölur í næstu viku. Samkvæmt The Wall Street Journal þá mun líklega vera samdráttur sem nemur 1,2%. Þetta yrði annar samdráttarfjórðungurinn í síðustu þremur uppgjörum.