Efnahagsvandinn og samdráttur í einkaneyslu í heimshagkerfinu hefur komið illa við olífubændur og hefur verðið á olífudropanum hrunið. Hann er nú á svipuðum slóðum og fyrir áratug. Þetta eru sérstaklega slæm tíðindi fyrir þau ríki á evrusvæðinu sem versta standa en Ítalír, Spánverjar og Grikkir standa undir meira en 70% af ólífurækt heimsins.

Fram kemur í netútgáfu breska viðskiptadagblaðsins Financial Times, að tonnið af jómfrúarolíu, sem neytendur þekkja betur sem extra virgin, kosti nú orðið um 2.900 dali. Það er á svipuðum slóðum og árið 2002.

Í blaðinu segir að minni eftirspurn eftir olífuolíu sé stór sneið af útflutningi þeirra þriggja landa sem verst standa. Þegar við bætist að metuppskera hafi verið hjá olíubændum á Spáni á þessu ári og birgðasöfnun þeirra með mesta móti þá hreyfist lagerinn lítið. Þetta veldur því svo aftur að olífubændur í dreifðari byggðum Grikklands, Spánar og Ítalíu hafa ekki getað fjölgað starfsfólki með sama hætti og undangengin ár.