„Horfur um viðskiptakjör hafa batnað. Innflutningsverð hefur lækkað töluvert og þá fyrst og fremst olían. Á meðan útflutningsverð gefur ekki eftir blasir við að horfur um viðskiptakjör hafa batnað frá því í nóvember,“ segir Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, í samtali við Morgunblaðið .

Þórarinn telur að verðhrun á olíu að undanförnu muni að líkindum örva hagvöxt og leiða til þess að hann verði meiri undir lok árs 2014 en hann hefði annars orðið.

„Álverðið hefur ekki gefið eftir með sama hætti og verð á sjávarafurðum hefur hækkað umtalsvert. Þessi þróun er því mjög jákvæð. Þetta er að gerast hjá öllum ríkjum sem flytja inn olíu. Þau eru að fá töluverðan bata í viðskiptakjörum. Það mun þá þýða, að öðru óbreyttu, batnandi hagvaxtarhorfur fyrir þau ríki,“ segir hann jafnframt.

Viðskiptablaðið fjallaði um áhrif lækkunar olíuverðs á kaupmátt íslenskra heimila í síðasta mánuði. Þar kom meðal annars fram að hún myndi að líkindum hafa áhrif á verðbólguspá Seðlabankans og væri auk þess óvænt kjarabót fyrir íslensk heimili, að mati Þórarins og Hrafns Steinarssonar, sérfræðings hjá greiningardeild Arion banka.