Pratik Kumar, stofnandi og framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins App Dynamic, segir til mikils að vinna ef til verði einn staðall sem allir nota fyrir þráðlausa skjádeilingu. Sú tækni yrði þá einsoknar þráðlaust HDMI.

Hann segir starfsumhverfi fyrirtækisins hafa breyst mikið frá því það hóf að vinna í slíkri tækni, sem í dag er flaggskip fyrirtækisins. „Þegar við byrjuðum var engin samkeppni, við vorum brautryðjendur. Fólk var ánægt með vöruna jafnvel þótt hún væri ekki óaðfinnanlega útfærð tæknilega, einfaldlega af því að hún hafði ekki verið í boði áður.

Í dag er nóg til af slíkum lausnum. Okkur stóðu því tveir valmöguleikar til boða. Fara að einbeita okkur að öðru eða vinna í að gera okkar lausn þá bestu á ört vaxandi markaði.“

Þótt samkeppnin sé orðin harðari segir Pratik tækifærin að sama skapi vera orðin meiri. „Fjöldi skjáa á hverju heimili og hverjum vinnustað fer sífellt vaxandi, og markaðurinn fyrir okkar vöru því sömuleiðis.“

Enn sem komið er hefur enginn einn staðall náð yfirburðastöðu í þessum efnum. Það er því til mikils að vinna ef einhverjum tekst að koma sinni tækni í þá stöðu, en takist það með lausn sem virkar á öllum tækjum gæti hún orðið nokkurs konar þráðlaust HDMI. „Allir þekkja HDMI, jafnvel þeir sem hafa lítið eða ekkert vit á tækni.“

Byrjaði að skrifa forrit fyrir iPhone
Upp úr hruninu keypti Pratik iPhone síma handa konunni sinni, en þegar hún afþakkaði hóf hann að dunda sér við að búa til fyrir hann snjallforrit. Fyrr en varði var hann farinn að eyða öllum sínum frítíma í snjallforritasmíðina og kominn með skrifstofu, og brátt fóru sölutekjurnar fram úr laununum hans hjá Arion banka. Hann sagði því upp hjá bankanum og stofnaði App Dynamic.

Fyrsta forrit Pratiks hét Remote HD og gerði notendum kleift að nota símann sinn sem fjarstýringu fyrir tölvuna sína, en viðmótið breyttist eftir því hvað var verið að gera í tölvunni. Á hápunkti vinsælda þess var forritið það 17. tekjuhæsta í sölutorgi snjallforrita fyrir iPhone síma: App Store.

Í dag vinna ellefu manns hjá App Dynamic á veglegri en heimilislegri skrifstofu á 19. hæð Smáraturns. Fyrirtækið hefur aldrei þegið utanaðkomandi fjármögnun, hvorki styrki né fjárfestingu, heldur frá upphafi verið fjármagnað með tekjunum einum saman.

Vöxtur fyrirtækisins var ævintýralegur fyrstu árin. Frá 2012 til 2015 hátt í sexfölduðust tekjur þess, og sé miðað við 2013 til 2016 jukust þær um 255%, en fyrirtækið var efst íslenskra fyrirtækja á lista Financial Times yfir ört vaxandi fyrirtæki fyrir fyrra tímabilið. Veltan nam um 250 milljónum króna í fyrra og hefur haldist nokkuð stöðug frá 2016.

Nánar er rætt við Pratik í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .