*

laugardagur, 16. október 2021
Erlent 21. september 2021 19:21

Verði ekki kínverska Lehman

Áhrif af falli Evergrande gætu að mati greinenda verið nokkur til skamms tíma en takmörkuð til lengri tíma.

Ritstjórn
epa

Greinendur og markaðasaðilar telja takmarkaðar líkur á því að mögulegt fall kínverska fasteignarisans Evergrande geti orðið kínversk útgáfa af falli Lehman Brothers. Áhrifin á markaðin gætu þó orðið nokkur til skamms tíma. 

Félagið, sem skuldar yfir 300 milljarða bandaríkjadala, þarf að standa skil á 83,5 milljóna dala vaxtagreiðslu fyrir vikulok. Í næstu viku er síðan önnur greiðsla, tæplega helmingi smærri, á gjalddaga. Viðbúið er að skuldin í heild gjaldfalli ef vanskil standa í þrjátíu daga. 

Fréttir af mögulegu falli félagsins höfðu áhrif á markaði um víða veröld í gær sökum óvissu um hvaða áhrif þrot félagsins gæti haft. Bréf í Evergrande féllu sjö prósent í dag eftir að hafa fallið tíu prósent í byrjun viku. 

„Það er óvíst hve mikil og hve harkaleg áhrifin af mögulegu þroti verða á húsnæðismarkaðinn og byggingariðnaðinn í heild sinni. Að okkar mati ættu fjárfestar að doka á hliðarlínunni þar til staðan skýrist,“ hefur Reuters eftir greiningu frá Deutsche Bank. Markaðir ytra réttu enda eilítið úr kútnum í dag.

Tíðinda er beðið af því hvort kínverska ríkið mun eitthvað athafast í málinu eða hvort stjórnvöld muni láta það ósnert. Pískrað hefur verið um að til skoðunar sé að brytja félagið niður í smærri einingar. Enn sem komið er hefur þó ekkert heyrst frá stjórnvöldum.