Guðmundur Halldór Björnsson, verkefnastjóri viðskiptaþróunar hjá Lyfju segir að hægt verði að kaupa 10 andlitsgrímur á 550 krónur, eða 55 krónur stykkir í öllum 46 apótekum og útibúum Lyfju um land allt og í netverslun Lyfju strax eftir helgi nú þegar félagið hefur samningi við BYD CARE, einn stærsti grímuframleiðanda í heimi.

Segir hann í tilkynningu að þökk sé samstarfinu geti Lyfja nú boðið 10 grímur í pakka á 550 kr. eða 55 kr. stykkið en til samanburðar hafi einingarverðið verið 56 kr. hjá Costco í vikunni. Vakin er athygli á því í tilkynningunni að viðskiptavinir geti keypt andlitsgrímur í 10 stykkja pakka og þurfa því ekki að kaupa mikið magn til þess að tryggja sér lágt verð.

Hægt verði að fá andlitsgrímurnar á þessu verði í öllum 46 apótekum og útibúum Lyfju um allt land, auk netverslunar Lyfju en  unnið sé að dreifingu á grímunum í verslanir Lyfju um þessar mundir. Það verði nóg til því Lyfja hafi jafnframt tryggt sér mikið magn af andlitsgrímum.

Andlitgrímurnar eru þriggja laga og af mjög miklum gæðum að því er félagið segir í tilkynningunni. Þær eru miðaðar við staðalin IIR sem eru bestu gæðin á andlitsgrímum sem mælt hefur verið með fyrir almenning. Grímurnar eru í samræmi við þær reglur sem Heilbrigðisráðuneytið hefur birt.

Lyfja hvetur viðskiptavini til að vera vel vakandi við kaup á andlitsgrímum, og bendir á að góð regla sé að kanna hvort að það sé CE merking á umbúðunum.

„Við erum afar ánægð að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á gæða andlitsgrímur á góðu verði. Eins og nýbirt verðlagskönnun sýnir glöggt þá var innkaupsverð okkar frá innlendum birgjum margfalt útsöluverð hjá Costco. Við lögðum því mikla áherslu á að finna gæða grímur á góðu verði og þetta var niðurstaðan. Við erum mjög ánægð með að geta boðið lægra verð en alþjóðlegi risinn Costco og það um land allt. Við tryggðum okkur mikið magn af andlitsgrímum og vonum að Íslendingar taki þessu framtaki vel,“ segir Guðmundur.

„Að gefnu tilefni viljum við vekja athygli á að það er mikið magn af andlitsgrímum í sölu á netinu og í verslunum sem erfitt er að meta gæðin á. Við hvetjum því Íslendinga til að kynna sér vel vöruna áður en hún er keypt. Við nefnum þetta sérstaklega vegna þess að við höfum fengið mörg tilboð á andlitsgrímum sem ekki stóðust nánari skoðun.”