Stefnt er að því að bjóða til sölu 25% hlut í Eimskipafélaginu upp úr miðjum nóvember. Fagfjárfestum verður boðinn 20% hlutur í lokuðu útboði og 5% verða boðin almenningi til kaups. Ef eftirspurnin í almenningsútboði verður mikil verður allt að 3% hlutur félagsins seldur aukalega í almennu útboði til að mæta eftirspurninni.

Þetta hefur Viðskiptablaðið eftir staðfestum heimildum. Samkvæmt heimildum blaðsins er áætlað að hluturinn verði boðinn til sölu á genginu 215-230 á hvern hlut. Gengi kaupverðsins mun ráðast í lokuðu útboði og almenningi verður boðið að kaupa á sama gengi eins og venja er.

Stærstu hluthafar Eimskips í dag eru (gamli) Landsbanki Íslands með um 30% hlut og bandaríska fjárfestingarfélagið Yucaipa með um 25% hlut (í gegnum tvo sjóði). Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins stefnir slitastjórn Landsbankans á að selja tæplega 20% hlut í félaginu sem þýðir að Yucaipa mun selja um eða yfir 5% hlut.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.