„Þessi mynd sem við sjáum núna er ekki alveg í takt við lögmál um framboð og eftirspurn. Verðið ætti nú að lækka ef um tvö þúsund tonn eru óseld af kjöti rétt fyrir sláturtíð. Einnig ætti verðið til neytenda að lækka á þessum tíma ef miklar birgðir eru til í landinu af kjöti,“ segir Þórólfur Matthíasson í samtali við Fréttablaðið um hækkun afurðaverðs til sauðfjárbænda í þessari sláturtíð miðað við sláturtíðina í fyrra. Hækkunin á sér stað þrátt fyrir að um tvö þúsund tonn af lambakjöti hafi verið óseld um síðustu mánaðamót.

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Félags sauðfjárbænda, telur hins vegar að afurðaverðið sé of lágt sé tekið tillit til þess hvað það kostar að framleiða lambakjöt með öllum framleiðslukostnaði. Segir hann jafnframt að afurðastöðvar verði að svara því hvers vegna verð hækkar þrátt fyrir að kjöt seljist ekki. „Þeir hljóta að greiða fyrir kjötið það verð sem þeir telja sig geta fengið fyrir það eftir vinnslu.“