Undanfarið hafa hótelrekendur lækkað verð á gistinóttum til að bregðast við stöðu ferðaþjónustunnar. Hótelstjórar sem Viðskiptablaðið ræddi við segjast hafa þurft að lækka verð á gistingu um 10–20% að undanförnu og tölur fyrir júní sýna að meðalverð á hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað um tæp 7%.

Samkvæmt skýrslu um afkomu hótelanna hér á landi sem unnin var af KPMG fyrir Ferðamálastofu kemur fram að meðalverð á herbergi  hafi hækkað nokkuð milli áranna 2015 og 2016. Segir í skýrslunni að lauslega áætlað hafi hækkunin numið um 10%. Hins vegar var óveruleg breyting á meðalverði milli áranna 2016– 2018. Ekki liggja fyrir tölulegar upplýsingar fyrir árið 2019 aðrar en heildarfjöldi gistinátta en hótelstjórar, sem reka hótel á útjaðri höfuðborgarsvæðisins og Viðskiptablaðið ræddi við, segjast hafa þurft að lækka verð á gistinóttum á þessu ári.

Hafa þurft að lækka verð

Kerry Holness, hótelstjóri á Hótel Smára í Kópavogi og Hótel Völlum í Hafnarfirði, segir að þau hafi búist við meiri fækkun hótelgesta í kjölfar gjaldþrots WOW air en verið hefur. „Við bjuggumst við mikilli fækkun í kjölfar frétta af gjaldþroti WOW air. Sérstaklega í ljósi þess að margir af okkar viðskiptavinum koma beint frá flugvellinum. Við erum síðasta stop Gray Line rútunnar og mikill fjöldi okkar viðskiptavina gistir hjá okkur vegna þess hversu nálægt flugvellinum við erum. Það hefur verið fækkun hjá okkur en ekki jafnmikil og við bjuggumst við,“ segir hún og bætir við að bókanir í maí og júní hafi gengið ágætlega en hins vegar hafi þeim fækkað um 10% í júlí  miðað við sama tímabil í fyrra.

„Um þessar mundir bjóðum við upp á mun fleiri tilboð heldur en við höfum gert. Síðan hefur verð á skammtímabókunum hjá okkur lækkað um 20%.“ Spurð hvort hún sé bjartsýn á að hótelgestum muni fjölga þegar líður á sumarið segir hún að hún telji að það muni gerast. „Markaðurinn er að breytast og við finnum fyrir því að fleiri ferðamenn eru að koma hvaðanæva að til okkar. Við höfum til að mynda fundið fyrir mikilli fjölgun ferðamanna frá Asíu. Ég er því bjartsýn á að þetta muni verða allt í lagi.“

Kerry segir að hótelin finni ekki fyrir mjög miklum árstíðarsveiflum í bókunum. „Það er kannski svona á milli tímabila sem við finnum helst fyrir einhverri breytingu. Um þessar mundir erum við að fá hópa sem gista hjá okkur yfir lengri tíma en á veturna fáum við hópa sem koma yfirleitt yfir skemmri tíma. Til að mynda koma sumir sérstaklega til að skoða Norðurljósin. Svo það er svona á milli tímabila sem er minna að gera. Til dæmis er mjög mikið að gera núna en í september og október er minna að gera en síðan verður meira að gera þegar líður á veturinn.

Viktor Alex Ragnarsson, móttökustjóri hjá First Hotel í Kópavogi, segir að verð á gistingu hjá þeim hafi verið lægra heldur en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. „Við erum tiltölulega nýtt hótel en við opnuðum í desember árið 2017. Allir mánuðirnir hjá okkur hafa verið stærri sé miðað við sama tímabil í fyrra en þó ekki jafn stórir og við bjuggumst við, eða vonuðumst til. Við vitum að þróunin hefur líka verið þannig á öðrum hótelum á Reykjavíkursvæðinu,“ segir Viktor og bætir við að hann skjóti á að verð á gistingu sé um 10–15% lægra heldur en hugsað var.

„First Hotels er skandinavísk hótelkeðja og þegar hótelið í Kópavogi var opnað var þetta hugsað sem hótel sem byði upp á gistingu á sanngjörnu verði. Til marks um það hef ég til að mynda aldrei séð fleiri Íslendinga á hóteli eins og þegar ég byrjaði hér.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .