*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 26. júní 2019 14:10

Verðlækkun hjá hótelum

Verð á þjónustu hótela og gistiheimila hér á landi hefur lækkað töluvert miðað við síðasta ár, hvort sem mælt er í krónum eða evrum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Verð á þjónustu hótela og gistiheimila hér á landi hefur lækkað töluvert miðað við síðasta ár, hvort sem mælt er í krónum eða evrum. Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans.

„Lækkunin hefur þó reynst nokkuð meiri í evrum en krónum sökum þeirrar veikingar sem orðið hefur á krónunni frá sömu tímapunktum í fyrra. Sé horft á liðinn „þjónusta hótela og gistiheimila“ sem er einn af undirliðum neysluverðsvísitölunnar sést að verðlækkunin nú í maí mælt í evrum nam 21,9% borið saman við sama tímabil í fyrra. Þetta er mesta verðlækkun á 12 mánaða grundvelli í evrum síðan í maí 2009," segir í Hagsjánni.

„Verðlækkunin í krónum nam 12,4% en fara þarf aftur til maí 2014 til að finna meiri verðlækkun í krónum. Sé horft á mælinguna í evrum var þetta níundi mánuðurinn í röð þar sem verðið lækkar frá sama mánuði árið áður. Þetta verðlækkunartímabil hófst í desember 2017 og hefur það staðið nær óslitið síðan þá. Að undanskyldri lítils háttar verðhækkun í júní og ágúst á síðasta ári hefur verðið stefnt ákveðið niður á við. Verðlækkanirnar hafa verið það umfangsmiklar að þrátt fyrir að krónan hafi veikst hefur verðlækkun einnig mælst í krónum talið."