Þrátt fyrir lítils háttar lækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu í maí þá mun húsnæðisverð líklega halda áfram að hækka nokkuð hratt á næstu misserum. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka. Þjóðskrá Íslands birti í gær gögn sem sýna að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,1% í maí frá fyrri mánuði. Er það í fyrsta skipti sem íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkar á þessu ári. Verð íbúðarhúsnæðis hefur hækkað um 2,8% síðustu þrjá mánuði og 9,6% síðustu 12 mánuði.

Í greiningunni segir að eðlilegt sé í hækkunarferli eins og nú hefur staðið að íbúðaverð lækki í einstaka mánuðum. Íbúðaverð hafi t.a.m. lækkað um 0,5% í desember og 0,1% í ágúst í fyrra, þrátt fyrir tæpa 10% verðhækkun síðasta árið.

Þá kemur fram að velta og fjöldi kaupsamninga á íbúðamarkaðinum hafi aukist talsvert síðustu mánuði. Velta á íbúðamarkaði það sem af er ári nemur 92,4 milljörðum króna, sem er 21,6% aukning frá sama tímabili í fyrra. Fjöldi kaupsamninga hefur aukist um 8,8% á tímabilinu. Í greiningunni segir að þrátt fyrir aukna í veltu og fjölda kaupsamninga þá sé umfang markaðarins enn lítið í sögulegu samhengi. Því sé vöxturinn ekki merki um þenslu, heldur sé markaðurinn að losa sig við slakann og að færast nær eðlilegu árferði.