Samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands lækkaði leiguverð á höfuðborgarsvæðinu um 2,2% milli apríl og maí. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Hagsjá Landsbankans.

„Leiguverð hefur nú lækkað fjóra mánuði í röð sem er lengsta samfellda tímabil verðlækkana frá því að mælingar á leiguverði hófust í upphafi árs 2011. Ef litið er til þróunar 12 mánuði aftur í tímann, hefur leiguverð nú lækkað um 0,2% frá því í maí fyrir ári síðan, og er þetta í fyrsta sinn frá því að mælingar hófust sem lækkun mælist milli ára, " segir í Hagsjánni.

Jafnframt segir að til samanburðar mældist óvenju mikil hækkun á íbúðaverði milli mánaða í maí. Kaupverð á íbúðum í fjölbýli hækkaði um 0,9% og mælist 12 mánaða hækkun 4,5%. Stærstan hluta þessa árs hefur 12 mánaða hækkun leiguverðs mælst ofar sambærilegum hækkunum á íbúðaverði.