Veitur ohf, munu lækka gjöld fyrir raforkudreifingu og kalt vatn um áramótin þegar Planinu svokallaða lýkur, en það var sérstök fjárhagsáætlun sem unnið hefur verið eftir innan OR samstæðunnar frá árinu 2011 sem fól í sér verulegan sparnað í rekstrinum.

Flutningagjald Landsnets hækkar

Lækkar gjaldið fyrir dreifingu rafmagns um 5,8% um áramótin, en það gerist í kjölfar þess að flutningsgjald sem rennur til Landsnets hækkar núna 1. desember.

Á ákveðnum svæðum lækkar svo vatnsgjaldið en með breytingum sem verða um áramótin er stigið skref í átt að því að gjaldið fyrir þjónustu hverrar vatnsveitu endurspegli kostnaðinn við rekstur hennar.

Ræðst af stærð

Lækkunin í Reykjavík og á Akranesi nemur 11,2% en í Stykkishólmi nemur lækkunin 8,8%, en almennt vatnsgjald ræðst af stærð húsnæðis en ekki verðmæti þess.

Á sama tíma hækkar gjaldskrá hitaveitunnar um 0,48% sem fylgir vísitölu neysluverðs og gjald fyrir fráveitu hækkar um 1,6%, en það miðast líkt og vatnsgjaldið af stærð húsnæðis.

Segir í fréttatilkynningu Veitna að þegar allar breytingarnar séu lagðar saman lækki veitukostnaður heimilanna samanlagt, eða um 4.400 krónur á ári ef miðað er við algenga ársnotkun heimilis á ári.