Almennt verðlag er lægst á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Þannig er verðlag á Íslandi einungis 13% hærra en í Evrópusambandinu, borið saman við 54% hærra verðlag í Noregi. Í Danmörku er þetta hlutfall 38%, á Finnlandi 24% og í Svíþjóð 34%.

Landsframleiðsla á mann á Íslandi, eftir að leiðrétt hefur verið fyrir kaupmátt (GDP PPS), er þó öllu lægri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Þannig jafngildir kaupmáttarleiðrétt landsframleiðsla á mann 28.500 bandaríkjadölum, borið saman við 32.000 dali í Danmörku, 29.100 dali í Finnlandi, 49.900 dali í Noregi og 32.700 dali í Svíþjóð.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Norræna ráðsins, Nordisk statistisk årsbok. Í skýrslunni eru Norðurlöndin borin saman með tölfræði um efnahagslíf, heilsu, mannfjöldaþróun, atvinnumál, samfélagsmál, menningu og fleira.