*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 20. október 2017 11:57

Verðlag lækkar ánægju ferðamanna

Ferðamenn óánægðari með Íslandsdvöl í ár miðað við í fyrra, og minni líkur á að þeir mæli með ferðum hingað.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ferðamenn sem sækja Ísland heim eru óánægðari með ferðina í sumar miðað við sumarið á undan. Ferðamannapúls Gallup hefur lækkað marktækt á milli sumra en hann mælir heildaránægju og heildarupplifun ferðamanna á heimsókn þeirra til Íslands.

Ferðamannapúlsinn var 2,5 stigum lægri fyrir sumarið 2017 heldur en sumarið 2016. Ferðamannapúlsinn hefur til ágúst 2017 mælst lægri í öllum mánuðum ársins 2017 miðað við sömu mánuði síðasta árs. Í ágúst var munurinn ómarktækur og mældist töluvert minni en á fyrri mánuðum ársins þar sem munurinn var í öllum tilfellum yfir 2 stig.

Rússneskir ferðamenn voru ánægðastir með heimsókn sína til landsins í sumar (87 stig), en þeir  mælast nokkuð hærri en ítalskir ferðamenn (84,2 stig), sem fylgja næst á eftir. Á hinn endann mældist Ferðamannapúlsinn lægstur meðal Norðmanna (79,8 stig) og Breta (80,2 stig).

Þetta eru jafnframt þeir ferðamannahópar sem hafa lækkað mest frá sama tíma í fyrra. Ferðamannapúlsinn lækkaði um 6,5 stig meðal norskra ferðamanna milli sumra og lækkaði um meira en 4 stig meðal breskra, pólskra og sænskra ferðamanna.

Óánægja með verðlag veldur lækkun í Ferðamannapúlsi

Þegar horft er í undirþætti Ferðamannapúlsins stafar lækkunin milli sumra fyrst og fremst af minnkandi ánægju með verðlag, sem mældist 4,5 stigum minni heldur en sumarið 2016. Aðrir undirþættir Ferðamannapúlsins lækkuðu einnig frá sumrinu 2016 til sumarsins 2017.

Líkur á að mæla með Íslandi sem ferðamannastað minnkuðu um 2,7 stig en hvað varðar heildaránægju ferðamanna, mati þeirra á gestrisni Íslendinga og að hversu miklu leyti væntingar ferðamanna fyrir ferðina voru uppfylltar var lækkunin undir 2 stigum.

Um Ferðamannapúlsinn

Gallup framkvæmir símælingar meðal erlendra ferðamanna á Íslandi og eru niðurstöðurnar meðal annars nýttar til framsetningar á Ferðamannapúlsinum, sem er samstarfsverkefni Isavia, Ferðamálastofu og Gallup. Ferðamannapúlsinn mælir heildarupplifun ferðamanna af Íslandsferðinni. Könnunin er send á netföng ferðamanna sem nýlega hafa farið um Keflavíkurflugvöll.

Mánaðarlega er safnað u.þ.b. 1500 svörum og eru niðurstöður vigtaðar eftir þjóðerni. Ferðamannapúlsinn byggir á fimm spurningum sem allar vigta jafnt en spurt er um heildaránægju með Íslandsferðina, líkur á meðmælum, uppfyllingu væntinga, almenna gestrisni og hvort ferðin hafi verið peninganna virði.