Strimillinn er nýr hugbúnaður frá hugbúnaðarhúsinu Loftfarið sem safnar gögnum um verðlag með því að greina kassakvittanir frá notendum hugbúnaðarins í gegnum snjallsíma. Hann er enn í þróun en hægt er að senda strimla á netfangið [email protected] til að taka þátt í fyrstu skrefum þess.

„Strimillinn byggist á hugmynd sem við fengum fyrir nokkru síðan og aldrei náð að framkvæma fyrr en núna,“ segir Hugi Þórðarson hjá Loftfarinu um hugbúnaðinn en ásamt honum standa þeir Sindri Bergmann og Lee Roy Tipton að verkefninu. „Það er fullt af aðilum sem eru að framkvæma verðkannanir en þær eru kannski ekki með nýstárlegasta móti.

Á hverjum degi verða til fleiri tugir kílómetra af óvefengjanlegum verðlagsgögnum í gegnum strimlana sem maður fær þannig að við ætlum að bjóða upp á að menn geti tekið mynd af þeim í gegnum app eða sent okkur í tölvupósti og þá safnast þeir í sarp sem notandinn á. Við vélarlesum gögnin af honum upp að ákveðnu marki og stefnum að því að opna opinberan vef með verðlagsgögn auk þess sem fólk getur fengið yfirlit yfir eigin neyslu.“

Því fleiri strimlar, því betra

Eins og áður sagði er hugbúnaðurinn enn í þróun en Hugi segir að því fleiri sem senda kvittanir í gegnum ofangreint netfang, því fyrr geti Strimillinn náð fullri virkni. „Það hjálpar mjög mikið ef fólk byrjar strax að senda strimla því þá höfum við meira af sögulegum gögnum til að vinna úr og til þess að þjálfa kerfið,“ segir Hugi.

Nú er hafin vinna á því að þróa hugbúnaðinn enn frekar en auk þess eru þeir félagar að velta fyrir sér ýmsum tekjumódelum svo verkefnið geti haldið áfram að vaxa og dafna. „Eins og er þá er þetta fyrst og fremst hugsjónavinna en okkar heitasti draumur er að geta haft góðar tekjur til að reka verkefnið áfram,“ segir Hugi.