Viðurkenning Barnaheilla – Save the Children á Íslandi verður veitt í Þjóðmenningarhúsinu í dag, klukkan 12.00. Viðurkenningin er veitt ár hvert á afmæli Barnasáttmálans, en í ár eru 24 ár síðan hann var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Barnaheill veita árlega viðurkenningu á þessum degi til að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna, að því er segir í tilkynningu frá Barnaheillum á Íslandi. Viðurkenningin er veitt einstaklingum, samtökum eða stofnunum sem hafa unnið sérstaklega að málefnum barna, og hafa með starfi sínu bætt réttindi og stöðu þeirra.

Kolbrún Baldursdóttir, formaður Barnaheilla mun gera grein fyrir hver hlýtur viðurkenninguna í ár. Gunnar Hansson, leikari, ávarpar samkomuna og nemendur í Tónlistarskóla Garðabæjar verða með tónlistaratriði.