Þann 13. desember næstkomandi mun frú Eliza Jean Reid, afhenda markaðsfyrirtæki ársins 2018, verðlaun. Það er fyrirtæki sem dómnefnd á vegum ÍMARK hefur valið úr hópi fjölda markaðsfyrirtækja sem tóku þátt. Athöfnin fer fram á Hilton Reykjavík Nordica milli kl. 12:00-13:30. Markaðsverðlaun ÍMARK falla í skaut því fyrirtæki sem dómnefndin telur að hafi náð framúrskarndi árangri í markaðsmálum undanfarin tvö ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÍMARK.

Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem hafa verið áberandi í markaðsmálum undanfarin tvö ár og sannað þykir að sýnilegur árangur hafi náðst. Valið byggir á ítarlegu ferli dómnefndar þar sem lagt er mat á fagmennsku við markaðsstarfið, árangur og að fjárhagslegt öryggi sé til staðar.

Að þessu sinni eru fjögur fyrirtæki tilnefnd til verðlaunanna Markaðsfyrirtæki ársins 2018: Arion banki, Dominos, NOVA og Nox Medical.

ÍMARK hefur veitt Markaðsverðlaunin frá árinu 1991 en þetta er í 26. skipti sem verðlaunin eru veitt. Markmið verðlaunanna er að stuðla að aukinni fagmennsku í markaðsstarfi íslenskra fyrirtækja.