Verðlaunafé á tölvuleikjamótinu The International 4 er komið yfir tíu milljónir bandaríkjadala. Það er jafnvirði meira en 1.100 milljóna íslenskra króna. Á mótinu er keppt í hinum gríðarlega vinsæla tölvuleik Dota 2 .

Verðlaunafé fyrir sigur á tölvuleikjamóti hefur aldrei verið jafn hátt í sögunni. Til samanburðar var verðlaunaféð á sama móti í fyrra tæpar 2,9 milljónir bandaríkjadala. Útlit er fyrir að verðlaunaféð muni aukast þegar nær dregur úrslitakeppninni sem verður haldin dagana 18. til 21. júlí í Seattle í Washington fylki. Mótið verður sýnt í beinni útsendingu á vefsíðunni Twitch.tv.

Sigurvegararnir verða milljónamæringar

16 lið munu keppa til úrslita á mótinu en fimm leikmenn eru í hverju liði. Liðið sem sigrar mótið mun hljóta tæplega 4,8 milljónir bandaríkjadala eins og staðan er í dag, jafnvirði rúmlega 550 milljón íslenskra króna.

Í fyrra sigraði sænska liðið Alliance en þeir munu ekki keppa til úrslita þar sem þeir komust ekki upp úr riðlakeppni sem var haldin fyrir mótið. Samkvæmt erlendum veðbönkum þykir líklegast að kínverska liðið Invictus Gaming muni hreppa fyrsta sætið á mótinu í ár.