Nóbelsstofnunin í Svíþjóð hefur ákveðið að lækka verðlaunaféð, sem Nóbelsverðlaunahafar fá við og segja að undanfarinn áratug hafi stofnuninn eytt umfram getu.

Undanfarin ár hefur verðlaunaféð numið 10 milljónum sænskra króna, andvirði um 180 milljónum íslenskra króna, en verður í framtíðinni átta milljónir.

Í tilkynningu, sem Reuters fréttastofan vitnar í, segir að kostnaður hafi verið meiri en vaxta- og fjárfestingatekjur síðustu tíu ár og því hafi lækkunin verið nauðsynleg. Stofnunin hefur einnig ákveðið að lækka rekstrarkostnað. Verðlaunahafarnir í ár verða þeir fyrstu sem fá þessa lækkuðu verðlaunafjárhæð.