*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 9. desember 2012 09:56

Verðlaunin verða að krónum

Bardagaíþróttamaðurinn Gunnar Nelson þarf eins og aðrir að skipta verðlaunafé sínu erlendis frá í íslenskar krónur.

Gísli Freyr Valdórsson
Haraldur Dean Nelson, framkvæmdastjóri Mjölnis.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Í viðtali við Harald Dean Nelson, framkvæmdastjóra Mjölnis, er meðal annars fjallað um atvinnumennsku Gunnars Nelson í bardagaíþróttum, en Haraldur er bæði faðir og umboðsmaður Gunnars.

Fram kemur að fleiri stefna á atvinnumennsku í þessari grein og því liggur blaðamanni forvitni á að vita hvaða tækifæri og möguleikar, t.d. tekjumöguleikar, bíða þeirra sem gerast atvinnumenn í þessari íþrótt?

„Það liggja í raun fjölmörg tækifæri fyrir en tekjumöguleikarnir verða seint í takt við það sem við þekkjum úr knattspyrnuheiminum, ef það er það sem þú ert að velta fyrir þér,“ segir Haraldur.

„Tekjurnar fara þó vaxandi og aukast með fleiri bardögum og eins styrktarsamningum, sem koma í kjölfar velgengninnar í íþróttinni. Umhverfið í þessu er þó mjög sérstakt. Í knattspyrnunni þekkja allir einstaka leikmenn og félagslið — og halda um leið með sínu liði — þó þeir hafi jafnvel takmarkaðan áhuga á íþróttinni. Við sjáum líka að knattspyrnumenn geta farið á milli liða og í raun selt sig hæstbjóðanda. Í mörgum einstaklingsíþróttum er mikil áhersla á einstaklinginn sjálfan, t.d. Tiger Woods í golfinu og Mike Tyson í boxinu svo dæmi séu tekin. Það vita hins vegar ekki margir nema kannski hörðustu boxáhugamenn hvað WBA stendur fyrir. Þú þarft að vera aðeins inni í þessu til að þekkja þessa hluti. Þeir sem á annað borð fylgjast með MMA bardagaíþróttum vita hins vegar allir hvað UFC stendur fyrir og UFC er í raun miklu stærra vörumerki en íþróttamennirnir sjálfir. Það er því markmið allra þeirra sem vilja verða atvinnumenn í blönduðum bardagalistum að komast á samning hjá UFC og Gunnar náði miklum áfanga með því að skrifa undir samning við sambandið í sumar.“

En flækir það málin að búa á Íslandi, í landi gjaldeyrishafta og langt frá helstu keppnisstöðum?

„Já, það gerir það að mörgu leyti og sá tími gæti komið að við þyrftum að skoða þau mál,“ segir Haraldur.

„Síðast þegar Gunnar barðist í Englandi fékk hann ávísun fyrir launum sínum eftir að dreginn hafði verið skattur af þeim. Síðan var honum eins og öðrum skylt að skila öllum gjaldeyri og fá krónur í staðinn. Þrátt fyrir þessa kvöð tók margar vikur að fá ávísuninni skipt. Það er auðvitað nauðsynlegt fyrir þjóðina alla að það verði losað um þessi gjaldeyrishöft sem fyrst.“

 

Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Haraldur Dean yfir rekstur íþróttafélagsins Mjölnis og uppgang síðustu ára, starf sitt sem umboðsmaður, stöðu bardagaíþrótta í samanburði við aðrar íþróttir auk þess sem hann tjáir sig um rúman áratug í starfi hjá Samtökum iðnaðarins. Áskrifendur geta nálgast nýjasta tölublað Viðskiptablaðsins undir liðnum tölublöð hér að ofan.