Danski bankinn FIH Erhvervsbank, sem var um tíma í eigu Kaupþings banka og síðar Seðlabanka Íslands, skilaði fyrir skömmu uppgjöri fyrir árið 2012 en bankinn tilkynnti um tap upp á 1.537 milljónir danskra króna eftir skatta. Það samsvarar rúmlega 33 milljörðum íslenskra króna. Meginástæðan fyrir tapinu voru auknar niðurfærslur á lánasafni bankans.

Bjarne Graven Larsen
Bjarne Graven Larsen

Seðlabanki Íslands seldi hlut sinn í bankanum árið 2009 sem hafði verið settur að veði vegna þrautavaraláns Kaupþings í október 2008 að fjárhæð 500 milljónir evra. Seðlabankinn tilkynnti um söluna á FIH í september 2009 en greint var frá því að söluverðið væri um fimm milljarðar danskra króna eða um 103 milljarðar íslenskra króna. 1,9 milljarðar danskra króna voru staðgreiddir en allt að 3,1 milljarður átti að greiðast út leiðrétt með tilliti til þess taps sem FIH yrði fyrir vegna eigna á efnahagsreikningnum þann 30. júní 2010 þar til 31. desember 2014 auk þess sem mögulegur hagnaður FIH af Axcel III sjóði kæmi til hækkunar.

Metinn á núll

„Þetta er ekki lán en við köllum þetta útgreiðslurétt (e. Earn out agreement). Ef það verður þannig að tap FIH fer ekki yfir ákveðna upphæð yfir ákveðinn tíma verður greiðsla innt af hendi til Íslands. Þetta er skuld hjá eignarhaldsfélaginu (FIH Holding). Hjá því kemur fram hvernig þetta er verðmetið,“ segir Bjarne Graven Larsen, forstjóri FIH, í samtali við Viðskiptablaðið.

Þá segir hann:

„Á síðasta ári var matið um 95 milljónir danskra króna hjá FIH Holding. Það sem þetta veltur á er ekki afskriftir heldur raunverulegt tap bankans yfir tíma. Það sem við gerum er að verðmeta þetta á svipaðan hátt og kauprétt. Það er þá samningurinn miðað við þær upplýsingar sem við ráðum yfir í dag og þær afskriftir sem þegar hafa farið fram.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.