Samkvæmt nýlegri rannsókn greiningarfyrirtækisins Demoskopika eru tekjur ítölsku mafíunnar ‘Ndrangheta um 53 milljarðar evra á ári eða rúmir átta þúsund milljarðar íslenskra króna. Um 60,000 manns starfa fyrir mafíuna yfir um þrjátíu lönd.

Séu tekjur mafíunnar settar í samhengi við tekjur stærstu skráðu fyrirtækja á Ítalíu þá sést að ef ‘Ndrangheta væri skráð félag væri það fimmta stærsta fyrirtæki á Ítalíu.

Ef tekjurnar eru settar í samhengi við þjóðarframleiðslu ýmissa ríkja kemur í ljós að mafían er aðeins stærri í umsvifum en sem nemur þjóðarframleiðslu Lúxemborgar, Súdan og Dóminíska lýðveldisins.

Stærsti hluti tekna mafíunnar kemur frá eiturlyfjasölu og ólöglegri sorplosun en starfsemi hennar teygir einnig anga sína til fjárkúgunar, fjárhættuspila, vopnasölu, vændis og peningafölsunar.

Nánar er greint frá umsvifum ‘Ndrangheta í frétt vefmiðilsins Quartz.