*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Erlent 16. september 2019 07:30

Verðmæt netverslun með tannréttingar

SmileDirectClub metið á nærri þúsund milljarða íslenskra króna við skráningu. Laga tannskekkjur í gegnum póstinn.

Ritstjórn
SmileDirectClub býður fólki tannréttingalausn sem ekki kallar á heimsókn til sérfræðinga.

Tannréttingaþjónustan SmileDirectClub var metið á 8 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 998 milljörðum íslenskra króna þegar það var skráð á Nasdaq kauphöllina í síðustu viku. Félagið hefur þó aldrei skilað hagnaði, en tap af rekstri þess á síðasta ári nam 74,8 milljónum dala, eða sem nemur 9,3 milljörðum íslenskra króna.

Hlutafjárútboð félagsins í vikunni safnaði andvirði 1,3 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 162 milljörðum íslenskra króna, eða 23 dölum á hlut, sem var vel yfir markmiðum. Hlutabréfin lækkuðu þó eftir að viðskiptin hófust, en á föstudaginn hækkaði verðið á ný um 12,06%, og nam það þegar þetta er skrifað 18,68 dölum á hlut.

Frá því að félagið var stofnað árið 2014 hefur það veitt um 700 þúsund viðskiptavinum þjónustu en á síðasta ári þrefölduðust tekjur félagsins frá fyrra ári, og námu þær um 423 milljónum dala, eða sem nemur 52,8 milljörðum íslenskra króna.

Tannréttingar fyrir 240 þúsund krónur

Bandaríska félagið hóf einungis starfsemi í Bretlandi í sumar, í kjölfar þess að opna markaðina í Kanada og Ástralíu, en félagið hyggst halda áfram að stækka. Þjónusta fyrirtækisins sem felur í sér að skönnun á tönnum fólks í samstarfsverslunum eða eftir að fólk tekur mót af þeim heima hjá sér sendir það fólkinu tannréttingamót reglulega sem notendur þurfa að vera með yfir 22 tíma á dag.

„Þetta er gríðarlega stór markaður sem við erum að fara inn á,“ hefur BBC eftir aðalfjármálastjóra fyrirtækisins, Kyle Wailes. „Fjölmörg lönd eru á listanum á næsta ári og inn í framtíðina.“ Meðferðin, sem felur í sér að notendur fá nýtt og nýtt mót eftir því sem tennurnar aðlagast, kostar 1.895 Bandaríkjadali eða 80 dali á mánuði ef greitt með raðgreiðslum.

Það samsvarar 236 þúsund íslenskum krónum, sem sagt er mikill sparnaður fyrir viðskiptavini miðað við hefðbundnar tannréttingar. Er jafnframt haft eftir greinendum að aukinn áhugi á að ná af sér góðum sjálfsmyndum hafi aukið eftirspurn eftir beinum og fallegum tönnum. Samtök tannréttingasérfræðinga í 36 ríkjum Bandaríkjanna hafa lagt fram kvörtun vegna starfshátta fyrirtækisins.