*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Erlent 20. janúar 2020 10:37

Verðmætara en gull

Verð á málminum palladíum hefur rokið upp á síðustu vikum og er hann nú töluvert dýrari en gull.

Ritstjórn
Palladíum er aðallega notað við framleiðslu á hvarfakútum fyrir bensínbíla.

Heimsmarkaðsverð á málminum palladíum hefur hækkað um 25% í verði á síðustu tveimur vikum og nemur nú um 2.500 dollurum á únsuna. Þetta kemur fram í frétt BBC. Verið á málminum hefur raunar tæplega tvöfaldast síðasta árið og er töluvert verðmætari en gull en heimsmarkaðsverð þess er nú 1.560 dollarar á únsuna. 

Palladíum er aðallega framleitt í Rússlandi og í Suður-Afríku en samkvæmt BBC eru ástæður verðhækkananna einfaldlega þær að eftirspurn hefur verið töluvert meiri en framboð og þannig hefur staðan verið í þó nokkurn tíma. Framleiðsla á palladíum, sem er náskylt málmum á borð við platínum, var á síðasta ári undir áætlaðri heimsmarkaðseftirspurn áttunda árið í röð. 

Málmurinn er unnin sem hliðarafurð við vinnslu á platínum og nikkel sem hefur gert það að verkum að námur hafa minni sveigjanleika til þess að auka gröft til að svara aukinni eftirspurn. 

Málmurinn er aðallega notaður í framleiðslu á hvarfakútum fyrir bíla sem er hluti af útblásturskerfi þeirra. Hafa verðhækkanir á málminum meðal annars orðið til þess að þjófnaður á hvarfakútum hefur aukist umtalsvert og jókst meðal annars um 70% í London á fyrri helmingi síðasta árs samkvæmt BBC.Þá er hann einnig notaður í raftæki, tannlæknavörur og í skartgripi. 

Það eru einmitt bílaframleiðendur sem hafa keyrt áfram eftirspurn eftir palladíum. Víða um heim og þá sérstaklega í Kína, hafa reglugerðir varðandi útblásturskerfi verið hertar til að takast á við mengun frá bílum sem ganga fyrir olíu. Þá hefur útblástursskandallinn vegna díselbíla, þar sem Volkswagen var í aðalhlutverki, einnig haft áhrif þar sem kaupendur á nýjum bílum hafa í frekara mæli keypt bensínbíla í stað díselbíla. Platínum er notað við gerð hvarfakúta fyrir díselbíla á meðan palladíum er notað við gerð hvarfakúta fyrir bensínbíla.