Stefnt er að því að draga úr losun frá sjávarútvegi og auka eftirspurn eftir heilnæmum íslenskum fiski með samstarfi stjórnvalda og atvinnugreinarinnar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu um hvata til að draga úr kolefnisspori íslensks sjávarútvegs sem undirrituð var við ráðherrabústaðinn í dag. Með yfirlýsingunni er lagður grundvöllur að formlegu samstarfi stjórnvalda og sjávarútvegsins til að tryggja að markmiðum Íslands í loftslagsmálum verði náð, eins og segir í frétt frá stjórnvöldum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra skrifuðu fyrir hönd stjórnvalda undir samstarfsyfirlýsingu. Fyrir hönd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi skrifuðu undir Ólafur Marteinsson, formaður SFS og Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri samtakanna.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað starfshóp sem mun vinna með fulltrúum greinarinnar að tillögum til að draga úr losun og auka kolefnisbindingu. „Við erum öll hluti af vandanum og því verðum við öll að vera hluti af lausninni,“ sagði Bjarni Benediktsson í morgun. „Þær nauðsynlegu breytingar sem verður að gera í loftslagsmálum á næstu árum verða ekki að veruleika nema við tökum höndum saman; stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur.“

Starfshópnum hefur meðal annars verið falið að vinna:

Tillögu að umfangi samdráttar í losun frá sjávarútvegi til ársins 2030.

Tillögur um innleiðingu fjárhagslegra hvata vegna meðal annars fjárfestinga í búnaði og kerfum.

Tillögur um hvernig megi auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í sjávarútvegi.

Tillögur varðandi íblöndun lífeldsneytis og fýsileika þess í rekstrarlegu tilliti.

Í aðgerðaáætlun stjórnvalda er stefnt að því að samdráttur í losun innan greinarinnar verði um 50-60% árið 2030 miðað við árið 2005. Íslenskur sjávarútvegur hefur náð mikilvægum árangri í að draga úr olíunotkun á undanförnum áratugum, en ljóst er að tækifæri til að gera betur eru þó enn umtalsverð. Þannig er losun innlendra og erlendra fiskiskipa um fimmtungur af losun á ábyrgð Íslands.

„Það er mjög ánægjulegt að stjórnvöld hafi ákveðið að taka höndum saman við sjávarútveginn um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég er raunar sannfærður um að með góðu samstarfi atvinnugreinarinnar og stjórnvalda verði stærstu framfaraskerfin stigin í þessum efnum. Íslenskur sjávarútvegur hefur náð markverðum árangri í að minnka kolefnisspor sitt, en frá árinu 2005 hefur orðið 41% samdráttur í olíunotkun í sjávarútvegi, þrátt fyrir að magn þess sem veitt er sé engu minna. Stærstu áhrifaþættir í þessum árangri hafa verið fiskveiðistjórnunarkerfið og fjárfestingar fyrirtækjanna. Reynsla liðinna ára sýnir því að stjórnvöld og atvinnugreinin verða að ganga í takt. Tækifæri til að gera betur eru enn umtalsverð og ekki síst þess vegna, fögnum við þessu formlega samstarfi við stjórnvöld,“ sagði Ólafur Marteinsson, formaður SFS við undirritunina.

Fram kemur í yfirlýsingunni að um 98% af íslensku sjávarfangi sé selt á erlendum mörkuðum og líta þurfi til þess að þær aðgerðir sem ráðist er í dragi ekki úr samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Það sé raunhæft markmið að íslenskur sjávarútvegur verði kolefnishlutlaus og þannig skapist tækifæri til þess að hámarka virði þeirra verðmæta sem felast í auðlindum hafsins. Neytendur séu farnir að láta sig þessi mál varða með mun ákveðnari hætti en áður og nú þegar sjáist þess glögg merki innan ákveðinna aldurshópa. Afrakstur þessa samstarfs stjórnvalda og sjávarútvegs geti því orðið grundvallarþáttur í að auka eftirspurn eftir heilnæmum íslenskum fiski og ná markverðum árangri í loftslagsmálum í sjávarútvegi, til hagsældar fyrir íslenskt samfélag.