Árið 1999 hóaði enskukennarinn Jack Ma saman sautján vinum sínum og háskólanemendum í íbúð sinni í borginni Hangzhou til að skapa netverslunarfyrirtækið Alibaba. Óhætt er að segja að Ma hafi tekist ætlunarverk sitt um að umbylta umhverfi netverslunar á fyrirtækjamarkaði í Kína fyrir lítil og meðalstórfyrirtæki en Alibaba er í dag stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í heiminum en tvöfalt fleiri vörur fara í gegnum fyrirtækið en Amazon og eBay til samans.

Meginstarfsemi Alibaba er í raun þríþætt: Í fyrsta lagi er það enska útgáfa Alibaba sem er á fyrirtækjamarkaði sem meðhöndlar viðskipti milli inn- og útflutningsaðila í yfir 240 löndum. Í öðru lagi er það kínverski hlutinn sem þjónustar fyrirtækjamarkað í Kína og síðan er það smásöluhlutinn AliExpress. Þá hefur fyrirtækið einnig hafið starfsemi í skýþjónustu, gervigreind og fjártækni en greiðsluþjónustan Alipay var með um 1,2 milljarða notenda í lok þriðja ársfjórðungs 2019.

Þrátt fyrir að vera stofnað árið 1999 hefur vöxtur fyrirtækisins að mestu átt sér stað á síðustu 10 árum. Tekjur fyrirtækisins árið 2010 námu um milljarði dollara en 12 mánaða tekjur til loka september árið 2019 námu um 65 milljörðum dollara. Þá nam hagnaður þess árið 2014 4,8 milljörðum en hagnaður síðustu 12 mánaða nam um 22 milljörðum dollara. Alibaba var skráð á hlutabréfamarkað í New York árið 2014 sem var á þeim tíma stærsta hlutfjárútboð sögunnar en það nam 25 milljörðum dollara með markaðsvirði upp á 231 milljarð. Fyrirtækið er í dag verðmætasta fyrirtæki Kína en markaðsvirði þess í byrjun desember var um 540 milljarðar dollara og hefur aldrei verið hærra.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út á morgun.