Action Comics #1 frá júní árið 1938, teiknimyndasagan þar sem Superman leit fyrst dagsins ljós, er nú til sölu á eBay en hún er talin verðmætasta teiknimyndasaga allra tíma.

Teiknimyndasagan er talin vera heilagur kaleiki teiknimyndasagna og er strax komin með boð sem nemur tæpum 2 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 230 milljónum íslenskra króna. Uppboðið hófst á fimmtudaginn og mun því ljúka næsta sunnudag. Darren Adams sem sér um sölu á teiknimyndasögunni hefur nú þegar hafnað boði sem nemur 3 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum 350 milljónum íslenskra króna.

Talið er að einungis 50 til 100 hafi varðveist af teiknimyndasögunni. Árið 2011 seldi Nicolas Cage eintak fyrir 2,1 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum 250 milljónum íslenskra króna.