Bandaríski olíurisinn Exxon hefur misst stöðu sína sem næst stærsta fyrirtæki heims til tæknifyrirtækisins Microsoft. Ástæðan er rakin til lækkandi olíuverðs. Fjallað er um málið á vef BBC.

Eftir viðskipti gærdagsins lækkaði virði Exxon talsvert og er nú metið á tæpa 402 milljarða Bandaríkjadala. Hins vegar hafa bréf í Microsoft farið hækkandi og er virði fyrirtækisins nú rúmir 410 milljarðar Bandaríkjadala. Bréf í Microsoft hafa alls hækkað um rúmlega 30% á árinu og hafa ekki verið verðmætari í áratug.

Líkt og VB.is greindi frá í gær hefur eftirspurn eftir olíu minnkað að undanförnu og hefur heimsmarkaðsverð á olíu fallið um 30% frá því í júní. Heimsmarkaðsverð olíu hefur ekki verið lægra í fjögur ár. Mun ástandið vera farið að hafa veruleg áhrif á olíufyrirtæki.

Apple er, líkt og áður, stærsta fyrirtæki heims og er metið á tæpa 668 milljarða Bandaríkjadala.