Gengi hlutabréfa Icelandair Group hækkaði um 1,11% í Kauphöllinni í dag. Hlutabréf félagsins enduðu í 5,48 krónum á hlut í átta viðskiptum upp á 41,5 milljónir króna.

Greint var frá því fyrr í dag að Framtakssjóðurinn hafi sett 10% hlut úr eignasafni sínu í Icelandair Group í áskriftasölu. Þar er miðað við dagslokagengið á föstudag, 5,42 krónur á hlut. Miðað við lokaverðið á hlutum í félaginu í dag hefur verðmæti þessa 10% eignahlutar Framtakssjóðsins aukist um í kringum 40 milljónir króna frá því á föstudag.

Gengi hlutabréfa í flugrekstrarfélaginu rauk upp í 5,8 krónur á hlut í síðustu viku en féll um rúm 4,0% á markaði á föstudag.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,39% í dag og endaði í 903,85 stigum.

Gengi hlutabréfa Össurar hækkaði um 1,55% en gengi bréfa Marel lækkaði um 1,22%