Flugvöllum á Íslandi hefur fækkað verulega á síðustu árum. Þegar mest lét voru skráðir um 100 lendingarstaðir á landinu en í dag eru þeir 57. Einungis brot af þessum völlum eru notaðir í áætlunarflugi.

Meirihlutinn er hins vegar litlir vellir sem dreifast um landið, í grennd við byggðir og uppi á hálendi. Ástand þessara hátt í 50 litlu valla er afar misjafnt og hafa þeir átt undir högg að sækja síðustu misseri. Á síðustu 15-20 árum hefur rúmlega 20 völlum verið lokað. Fjórum völlum hefur verið lokað frá 2007 og nú stefnir í að þremur verði lokað á árinu.

Flugmálafélag íslands hefur barist ötullega gegn því að flugvöllum sé lokað. Matthías Sveinbjörnsson, forseti félagsins, segir þessa litlu flugvelli gegna mikilvægu hlutverki. „Þetta snýst um að þú getir lent einhvers staðar ef það kemur eitthvað upp á í flugi hjá þér. Það gefur augaleið að það felst aukið flugöryggi í fleiri lendingarstöðum,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Flugblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .