Of mörg fyrirtæki voru komin langt frá grunnrekstrinum og lögðu of mikla áherslu á vöxt og of litla áherslu á rekstur í aðdraganda hrunsins. Þetta segir Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða Landsbankans. Hún telur íslensku krónuna og háa vexti vera helstu hindranirnar sem íslensk fyrirtæki standi frammi fyrir í dag.

„Lítill heimamarkaður getur auðvitað líka staðið fyrirtækjum fyrir þrifum, það eru verðmæti í því að eiga góðan öflugan heimamarkað til að sanna sig og styrkja á áður en haldið er á aðra markaði.“

Hrefna segir að vel hafi tekist að aðlagast breyttum aðstæðum þó að hrunið hafi verið mikið áfall fyrir allt samfélagið.

„Ég held að í dag sé víðast meira jafnvægi, betri fókus og meira lagt upp úr því að byggja á sérhæfingu og sérstöðu. Við erum líka svo heppin að eiga blómlegar atvinnugreinar eins og sjávarútveg og ferðaþjónustu sem eru sterkar undirstöður fyrir hagkerfið og það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með miklum vexti ferðaþjónustunnar undanfarið. Það er auðvitað margt sem hefur stuðlað að þeim vexti en ég vil leyfa mér að nefna í þessu sambandi þá ákvörðun sem var tekin hjá Icelandair um að stefna á stóraukinn vöxt. Hún hefur heldur betur skilað sér fyrir fyrirtækið og haft margfeldisáhrif um allt þjóðfélagið í raun. Að þessu sögðu verður að viðurkennast að staðan er misjöfn eftir atvinnugreinum og það gefur auga leið að forsendur í smásölurekstri eru gríðarlega erfiðar svo dæmi sé tekið. Sama má segja um byggingarstarfsemi og fleiri greinar sem hafa átt erfitt uppdráttar,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Áhrifakonur sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .