Bókfært andvirði heildareigna þrotabús Kaupþings var metið 2.175 milljarðar króna í lok júní. Samþykktar kröfur í búið nema tæpum 3000 milljörðum. Þetta kemur fram í samtali við Steinar Þór Guðgeirsson hrl., formann skilanefndar Kaupþings, í Morgunblaðinu í dag.

Að sögn Steinars hefur skilanefndin einbeitt sér að því að hámarka eignir og hefur virði eigna bankans aukist umtalsvert. Til dæmis hefur verðmæti lánasafns nærri tvöfaldast frá desember 2008. „Virði eignanna er aukið með því að styðja við þær og stýra þeim á skynsamlegan hátt, t.d. með því að endurskipuleggja félög eða með því að endurfjármagna þau,“ segir Steinar.

„Í byrjun, þegar Kaupþing féll, biðu aðilar í löngum röðum. Þetta voru alls konar aðilar sem sáu þarna tækifæri og vildu kaupa eignir á brunaútsölu. Sumir þeirra voru fyrrverandi starfsmenn Kaupþings, sem nokkrum dögum eftir fall bankans voru farnir að vinna fyrir þessa aðila. Þeir þekktu auðvitað eignirnar út og inn og gátu verið býsna sannfærandi þegar þeir voru að reyna að fá okkur til að selja þær á 5-10% af upphaflegu andvirði.“