*

laugardagur, 12. júní 2021
Erlent 11. maí 2021 15:11

Verðmæti Oatly ríflega billjón króna

Frumútboð Oatly er hafið. Verðmæti félagsins er metið allt að 10,1 milljarður dala. Oprah og Jay Z eru meðal hluthafa.

Ritstjórn
Haframjólkurvörur Oatly fást víða á Íslandi.

Verðmæti sænska fyrirtækisins Oatly er metið á allt að 10,1 milljarð Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 1,25 billjónum íslenskra króna, fyrir frumútboð fyrirtækisins. Félagið verður skráð á Nasdaq Global Select markaðinn vestanhafs í kjölfar útboðsins.

Oatly, sem sérhæfir sig í framleiðslu mjólkurvara úr höfrum, hefur kunngjört skilmála fyrirhugaðs útboðs, hvar gert er ráð fyrir að gengi á hlut verði á bilinu 15 til 17 dalir. 64,7 milljónir hluta verða boðnir í frumútboðinu fyrir allt að 1,1 milljarð dala en hluthafar selja 19,7 milljónir hluta til viðbótar.

Reiknað er með því að heildarfjöldi hluta að loknu útboði verði ríflega 592 milljónir og gæti verðmæti fyrirtækisins því orðið allt að 10,1 milljarður dala.

Á meðal nafntogaðra hluthafa í Oatly eru sjónvarpskonan Oprah Winfrey, tónlistarmaðurinn Jay-Z og Howard Schultz, fyrrverandi forstjóri Starbucks.

Áætlað er að bréf Oatly verði tekin til viðskipta í kauphöll 20. maí næstkomandi.

Sjá einnig: Oprah og Jay-Z geta hagnast vel á Oatly

Stikkorð: frumútboð Oatly