Gengi hlutabréfa í VÍS og TM hefur lækkað talsvert á seinustu tólf mánuðum. Þannig hefur gengi í bréfum TM lækkað um 21,7% og 26,7% hjá VÍS. Sé lækkunin leiðrétt vegna arðgreiðslna er hún ekki eins mikil og ella, eins og við er að búast. Arðgreiðsluleiðrétt verð á hlutabréfum TM er þannig um 18,9% lægra en fyrir ári síðan, en hjá um VÍS 21,7% lægra samkvæmt upplýsingum úr Kauphöll. Þá hefur orðið nokkur lækkun á bréfum Sjóvár eða 14,3% frá því að félagið var skráð í Kauphöll í apríl á þessu ári.

„Tryggingafélögin hafa vissulega átt undir högg að sækja á hlutabréfamarkaðnum mestan part þessa árs,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka. „Ég tengi það meðal annars við þróun á skuldabréfamarkaði að undanförnu en ávöxtunarkrafa ríkistryggðra skuldabréfa hefur hækkað um í kringum 20-40 punkta á þessu ári,“ bætir hann við. Í ljósi þess að tryggingafélögin séu stórir eigendur ríkistryggðra bréfa leiðir hækkun á ávöxtunarkröfu þeirra til lækkunar á bókfærðu virði eignasafns tryggingafélaganna og því lakari afkomu af fjárfestingarstarfsemi en annars væri. „Það sama gildir um skráð íslensk hlutabréf sem hafa flest lækkað á árinu. Þannig að þrátt fyrir allt tal um þenslu og bólu á eignamörkuðum hafa þessir tveir mikilvægu eignamarkaðir skilað lakri ávöxtun að undanförnu ólíkt því sem átt hefur sér stað í flestum löndum í kringum okkur,“ segir Stefán.

Undir þetta tekur segir Jóhanna K. Pálsdóttir, sérfræðingur hjá greiningardeild Íslandsbanka. „Töluverður hluti arðsemi tryggingafélaganna kemur frá fjárfestingarsöfnum þeirra og gengi þeirra hefur því tilhneigingu til að fylgja gengisþróun á skráðum mörkuðum,“ segir Jóhanna. Ráðgert er að tryggingafélögin skili árshlutauppgjöri fyrir annan ársfjórðung í lok þessa mánaðar. „Mér sýnist fjárfestar óttast lítinn eða engan vöxt iðgjalda og að samkeppni um viðskiptavini og markaðshlutdeild komi niður á afkomu tryggingarekstrar,“ segir Stefán um framtíðarhorfur tryggingafélaganna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .