Fyrirtækið Data Lab Ísland er nýstofnað. Brynjólfur Borgar Jónsson er í forsvari fyrir fyrirtækið og er með viðamikla reynslu úr því sem hann kallar gagnavísindi. Hefur hann brennandi metnað og vilja til að hjálpa fyrirtækjum til þess að nýta sér þau verðmæti sem felast í gagnaöflun.

Fyrirtækið Data Lab Ísland er nýstofnað og tekur að sér að aðstoða íslensk fyrirtæki og stofnanir við að nýta sér aðferðafræði við gagnasöfnun og gagnaúrvinnslu. „Það sem við viljum gera er að hjálpa íslenskum fyrirtækjum og íslenskum stofnununum, nota bene, því þær eru líka að safna gögnum, að nýta sér þessa aðferðafræði, þessa nýju tækni í sinni starfsemi til að taka betri ákvarðanir. Annaðhvort til að bæta þjónustu eða sölu.

Tækifærunum fjölgar alltaf því að gagnasöfnunin eykst,“ segir Brynjólfur Borgar Jónsson sem er í forsvari fyrir fyrirtækið. Það eru þó til að byrja með aðallega tveir sem koma að fyrirtækinu, Brynjólfur og Arnar Freyr Vilmundsson, sem að sögn Brynjólfs kemur til með að sjá um umgjörðina og allt sem fylgir henni.

Gagnavísindi — hvað er það?

Gagnavísindi (e. analytics), er það þegar fyrirtæki eða stofnanir nýta sér ráðgjöf byggða á gögnum. Brynjólfur starfaði sjálfur um árabil við þróun slíkrar deildar hjá Capacent á Íslandi. „Ég gerðist ráðgjafi hjá Capacent og byggði þar upp nýja ráðgjöf sem þekkt sem „analytics“. Það byggir á því að taka betri ákvarðanir með því að notast við gögn. Ég fór inn í fullt af fyrirtækjum til að standa í slíkri greiningu,“ segir Brynjólfur. „Þróunin í heiminum er þannig að það felast verðmæti í gögnum sem fyrirtækin safna. Verðmætin eru ekkert leyst úr læðingi nema greiningu sé beitt á gögnin,“ bætir hann við.

Hann lærði fyrst sálfræði við Háskóla Íslands, en fann sig aðallega í tölfræði. Eftir að hafa unnið nokkur ár hjá fjölmiðlum við markaðsmál, ákvað hann að taka skrefið og færa sig til útlanda. Hann lærði það sem hann myndi kalla í dag gagnavísindi. Eftir að hafa starfað við gagnavísindi í Bretlandi ákvað hann að snúa aftur heim og nýta þá sérfræðiþekkingu sem hann hafði aflað sér í gegnum árin.

„Ég fer síðan í Landsbankann árið 2006 og þar fer ég í verkefni sem snúast um það að greina gögn um viðskiptavini. Þar fékk ég að þróa mína þekkingu á sviði hagnýtra tölfræðilegra greininga. Svo fór ég í ráðgjöfina hjá Capacent og hélt áfram að vinna við það að vinna gögn. Þetta er blanda af vísindum og list,“ tekur Brynjólfur fram.